Skip to content

Fullveldi.is

VEFSÍÐA UM UTANRÍKIS- OG ALÞJÓÐAMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Ritgerðir
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Sjálfskaparvíti og dómgreindarleysi

Posted on 16/04/202216/04/2022 by Fullveldi

Fyrir mánuði síðan flutti Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, ræðu á þingi þess þar sem hann sagði að sambandið hefði í raun gert hernaðaruppbyggingu Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, mögulega sem og hernað hans í Úkraínu með kaupum á rússnesku gasi og olíu um langt árabil. Evrópusambandið hefði þannig einfaldlega sofið á verðinum og tekið allt of seint við sér gagnvart yfirgangi rússneskra stjórnvalda.

Ég gerði þetta sama að umtalsefni í grein á Vísir.is í marz. Tilefnið var yfirlýsingar harðra Evrópusambandsinna um að við Íslendingar þyrftum að ganga í Evrópusambandið til þess að tryggja öryggi okkar gagnvart Rússlandi. Benti ég á að þær yfirlýsingar kæmu til að mynda afskaplega illa heim og saman við þá staðreynd að sambandið sjálft væri ljóslega berskjaldað gagnvart rússneskum stjórnvöldum þegar kæmi að orkuöryggi.

„Þegar Rússar réðust inn á Krímskaga töluðum við um að við þyrftum að draga úr því hversu háð við værum rússnesku gasi. Síðan þá höfum við aukið það í stað þess að draga úr því,“ sagði Borrell í ræðu sinni. Í annarri ræðu í byrjun marz sagði hann að rætt hefði verið um það að draga þyrfti úr í þessum efnum að minnsta kosti undanfarin tuttugu ár en þess í stað hefði Evrópusambandið sífellt orðið háðara rússnesku gasi.

Fjármunir streyma frá ESB til Rússlands

Fjörutíu prósent af því gasi sem notað er innan Evrópusambandsins hefur komið frá Rússlandi og um fjórðungur olíunnar. Gríðarlegir fjármunir hafa streymt árum saman frá ríkjum sambandsins í rússneska ríkissjóðinn og gera enn. Brezk og bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að stöðva alfarið orkukaup frá Rússlandi, sem verið hafa margfalt minni en í tilfelli Evrópusambandsins, en sambandið dregur hins vegar enn lappirnar.

Fyrst í stað tilkynnti Evrópusambandið að stefnt væri að því að sambandið yrði orðið óháð orku frá Rússlandi fyrir árið 2030 en í kjölfar harðrar gagnrýni var tilkynnt að draga ætti úr því hversu háð ríki þess væru rússnesku gasi og olíu um 2/3 fyrir áramót. Sérfræðingar telja þó í bezta falli óljóst hvort það markmið sé raunhæft. Sjálfur sagði Borrell að það yrði mjög erfitt og myndi kalla á miklar fórnir af hálfu íbúa sambandsins.

Með öðrum orðum hefur Evrópusambandið þannig ekki einvörðugu sofið á verðinum gagnvart rússneskum stjórnvöldum undanfarna áratugi í því gríðarlega mikilvæga öryggismáli sem orkumál eru í dag heldur sífellt orðið berskjaldaðra í þeim efnum og fyrst og fremst vegna eigin framgöngu. Þannig hefur einfaldlega verið um hreint sjálfskaparvíti að ræða sem og vítavert dómgreindarleysi ráðamanna sambandsins.

Hafa ekki kunnað fótum sínum forráð

Fyrir utan annað, líkt og til að mynda alvarlega vanrækslu ríkja Evrópusambandsins um langt árabil við að tryggja eigin varnir, er þannig í bezta falli vandséð hvaða vörn sambandið ætti að geta veitt Íslandi gegn rússneskum stjórnvöldum. Talað hefur einkum verið um að Evrópusambandið gæti veitt Íslandi einhvers konar vernd á sviði viðskiptamála án þess að skilgreint hafi verið nánar í hverju hún ætti nákvæmlega að felast.

Hins vegar liggur á sama tíma fyrir að Evrópusambandið sjálft og ríki þess hafa engan veginn kunnað fótum sínum forráð þegar kemur að viðskiptum við Rússland og telft með því orkuöryggi þess í algera tvísýnu. Raunar hefur verið um slíka hrópandi staðreynd að ræða að æðsti embættismaður sambandsins á sviði utanríkismála hefur ekki séð sér annað fært en að gangast ítrekað við henni á opinberum vettvangi.

Meðal þess sem stríðið í Úkraínu hefur þannig leitt af sér er að afhjúpa enn frekar hversu illa Evrópusambandið stendur að vígi þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Fyrst og fremst vegna framgöngu forystumanna sambandsins og ríkja þess. Fyrir utan annað verður það fyrir vikið að teljast nokkuð sérstakt sjónarmið, svo ekki sé meira sagt, að rétt væri að treysta þessum sömu aðilum fyrir öryggishagsmunum Íslands.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 16. apríl 2022)

(Ljósmynd: Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins. Eigandi: France Diplomatie – MEAE)


Tengt efni:
Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB
Varnarstöðin yrði opnuð á nýjan leik
Meiri áherzla á Evrópusambandsher
Vaxandi samvinna í varnarmálum
Vilja að ESB fái eigin hersveitir

FacebookTwitterEmail

SVIÐSLJÓS



Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi

„Við höfum bráðum styrkt Úkraínu um tæplega einn milljarð evra. Þetta kann að hljóma mikið en einn milljarður evra er það sem við greiðum Pútín á hverjum einasta degi fyrir orkuna sem hann útvegar okkur. Frá því að stríðið hófst höfum við greitt honum 35 milljarða evra. Berið þetta saman við þann eina milljarð evra sem við höfum látið Úkraínu fá til þess að festa kaup á vopnum og hergögnum.“



Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum

Vaxandi áhugi hefur verið á því hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum á undanförnum árum að styrkja tengslin við Ísland á sviði varnarmála. Ljóst er að þessi áhugi er þverpólitískur enda hefur honum verið fyrir að fara óháð því hvort repúblikanar eða demókratar hafa farið með völdin í landinu.

Færslur

  • Hefur augljósa yfirburðastöðu
  • Tveir ójafnir dómstólar
  • Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi
  • Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum
  • Sjálfskaparvíti og dómgreindarleysi
  • Stefnt að einu ríki frá upphafi
  • Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda
  • Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB
  • Varnarstöðin yrði opnuð á nýjan leik
  • Stjórnsýslan ekki nógu stór
  • Meiri áherzla á Evrópusambandsher
  • Hindri að fleiri ríki gangi úr ESB
  • Hátt raforkuverð líklega út árið
  • Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
  • Meira regluverk og minna svigrúm

Leitarvél

©2022 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb