Skip to content

Fullveldi.is

VEFSÍÐA UM UTANRÍKIS- OG ALÞJÓÐAMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Ritgerðir
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Flýti fyrir Bandaríkjum Evrópu

Posted on 23/06/202126/01/2022 by Fullveldi

Hundruð milljarða evra sjóður, sem er ætlað að stuðla að endurreisn efnahags ríkja Evrópusambandsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins, hefur flýtt fyrir þróun sambandsins í áttina að Bandaríkjum Evrópu. Þetta sagði Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, í ræðu í Barcelona síðastliðinn mánudag.

„Þetta hefur flýtt fyrir evrópskum samruna í áttina að Bandaríkjum Evrópu í framtíðinni,“ er haft eftir Sánchez í frétt brezka dagblaðsins Daily Telegraph. Sjóðurinn, sem hljóðar upp á 750 milljarða evra og verður útdeilt af Evrópusambandinu, myndi þannig dýpa enn frekar samrunaþróun sambandsins.

Tilurð sjóðsins er af mörgum talin stórt skref í þá átt að Evrópusambandið verði endanlega að einu ríki eins og stefnt hefur verið að frá upphafi. Lesa má meðal annars um lokamarkmið samrunans í endurminningum stjórnmálahagfræðingsins Jeans Monnet sem gjarnan er nefndur faðir sambandsins.

Veruleg andstaða hefur verið við það einkum á meðal stöndugri ríkja Evrópusambandsins að ríki sambandsins öxluðu ábyrgð á skuldum hvers annars. Stjórnvöld í ríkjum eins og Þýzkalandi höfðu áður sagt að slíkt kæmi alls ekki til greina. Með sjóðnum þykir ljóst að fallið hefur verið frá þeirri andstöðu.

Embættismenn Evrópusambandsins hafa fullyrt að um afmarkað verkefni sé að ræða sem skapi ekki fordæmi til framtíðar. Aðrir hafa bent á að þegar einu sinni hafi verið opnað á sameiginlegar skuldir ríkja sambandsins verði ekki svo auðveldlega farið aftur til baka. Líklegra sé að frekari skref verði tekin í þá átt.

Tilurð sjóðsins hefur verið líkt við þá ákvörðun stjórnvalda í Bandaríkjunum árið 1790 undir forystu Alexanders Hamiltons, þáverandi fjármálaráðherra landsins, að taka yfir stríðsskuldir bandarísku ríkjanna í kjölfar frelsisstríðs þeirra við Breta sem var í fyrsta sinn sem Bandaríkin stofnuðu til skulda í eigin nafni.

Ófáir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa á liðnum árum lýst yfir stuðningi við lokamarkmið samrunaþróunarinnar um eitt ríki samhliða því sem sambandið hefur sífellt öðlast fleiri einkenni ríkis. Það sem einna helzt hefur þótt vanta upp á í þeim efnum hafa verið sameiginleg fjármál ríkjanna.

HJG

(Ljósmynd: Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, og Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands. Eigandi: Ministry of the Presidency. Government of Spain)

FacebookTwitterEmail

SVIÐSLJÓS



Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi

„Við höfum bráðum styrkt Úkraínu um tæplega einn milljarð evra. Þetta kann að hljóma mikið en einn milljarður evra er það sem við greiðum Pútín á hverjum einasta degi fyrir orkuna sem hann útvegar okkur. Frá því að stríðið hófst höfum við greitt honum 35 milljarða evra. Berið þetta saman við þann eina milljarð evra sem við höfum látið Úkraínu fá til þess að festa kaup á vopnum og hergögnum.“



Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum

Vaxandi áhugi hefur verið á því hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum á undanförnum árum að styrkja tengslin við Ísland á sviði varnarmála. Ljóst er að þessi áhugi er þverpólitískur enda hefur honum verið fyrir að fara óháð því hvort repúblikanar eða demókratar hafa farið með völdin í landinu.

Færslur

  • Hefur augljósa yfirburðastöðu
  • Tveir ójafnir dómstólar
  • Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi
  • Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum
  • Sjálfskaparvíti og dómgreindarleysi
  • Stefnt að einu ríki frá upphafi
  • Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda
  • Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB
  • Varnarstöðin yrði opnuð á nýjan leik
  • Stjórnsýslan ekki nógu stór
  • Meiri áherzla á Evrópusambandsher
  • Hindri að fleiri ríki gangi úr ESB
  • Hátt raforkuverð líklega út árið
  • Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
  • Meira regluverk og minna svigrúm

Leitarvél

©2022 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb