Skip to content

Fullveldi.is

VEFSÍÐA UM UTANRÍKIS- OG ALÞJÓÐAMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
    • Evrópumál
    • Varnarmál
    • Fríverzlun
    • EES
    • Brexit
    • Úkraína
    • Kína
  • Greinar
    • Evrópumál
    • Varnarmál
    • Fríverzlun
    • EES
    • Brexit
    • Úkraína
    • Stjórnarskrármál
  • Ritgerðir
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá

Posted on 09/10/202131/07/2022 by Fullveldi

Töluvert hefur verið rætt um það hvort skipta eigi út stjórnarskrá lýðveldisins fyrir nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs eða gera nauðsynlegar umbætur á þeirri sem fyrir er. Hefur því gjarnan verið haldið fram í röðum þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá að með því að gera breytingar á gildandi stjórnarskrá væri verið að hafa að engu það ferli sem sett var af stað á sínum tíma og gat af sér tillögur ráðsins.

Stjórnlagaráði var hins vegar aldrei falið það verkefni af stjórnvöldum að semja nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Það sama á við um stjórnlagaþing þó það hafi reyndar aldrei tekið til starfa þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ógilda bæri kosningarnar til þess. Einungis var þannig lagt fyrir bæði stjórnlagaráð og stjórnlagaþing að leggja fram tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.

Tillögur um breytingar á stjórnarskránni

Þannig segir til að mynda í þingsályktun Alþingis um skipun stjórnlagaráðs sem samþykkt var þann 24. marz 2011: „Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.“ Þingsályktunin var forsenda þess að ráðið var skipað og á þeim grundvelli fór starfsemi þess fram.

Hið sama má lesa á vef stjórnlagaráðs: „Verkefni ráðsins væri að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.“ Þá sagði í greinargerð með frumvarpi til laga um stjórnlagaþing frá 2010: „Í frumvarpinu er ráðgert að stjórnlagaþing hafi tímabundið og afmarkað hlutverk sem er að endurskoða og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.“

Farið á skjön við þingsályktun Alþingis

Með öðrum orðum hafði stjórnlagaráð í raun aldrei heimild til þess að leggja fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá heldur einungis frumvarp sem innihéldi tillögur um breytingar á gildandi stjórnarskrá lýðveldisins sem fyrr segir. Sú ákvörðun ráðsins að ganga mun lengra en lagt var fyrir það, og leggja fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá, var þannig ljóslega í fullkominni andstöðu við það verkefni sem því var falið að vinna.

Krafa um að lýðveldisstjórnarskránni verði skipt úr fyrir nýja er fyrir vikið þvert á móti algerlega á skjön við þingsályktun Alþingis sem lá til grundvallar skipunar stjórnlagaráðs. Vert er einnig að hafa í huga að ráðið var Alþingi einungis til ráðgjafar í þessum efnum eins og tekið er skýrt fram meðal annars í greinargerðinni með þingsályktuninni. Rétt eins og þjóðatkvæðið sem fram fór haustið 2012 um tillögurnar.

Lokaorð Alþingis áréttað á kjörseðlinum

Það stóð einfaldlega aldrei til að tillögur stjórnlagaráðs yrðu sjálfkrafa samþykktar. Það er ekki að ástæðulausu að rætt var um tillögur í því sambandi og ítrekað áréttað í gögnum málsins, þar á meðal bæði í kynningarbæklingi sem sendur var á heimili landsins í aðdraganda þjóðaratkvæðisins og á kjörseðlinum, að Alþingi ætti lokaorðið lögum samkvæmt um það hvort, og þá að hve miklu leyti, tekið yrði mið af tillögunum.

Stefna ríkisstjórnarinnar, um að gerðar verði þær breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins sem talin er þörf á í sem breiðastri sátt og með eðlilegri hliðsjón af þeirri vinnu sem fram hefur farið á undanförnum árum í þessum efnum, er þannig í fullu samræmi bæði við þingsályktun Alþingis um skipun stjórnlagaráðs sem og þær forsendur sem lágu til grundvallar þjóðaratkvæðinu sem fram fór um tillögur ráðsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 9. október 2021)

(Ljósmynd: Stjórnarskrá Íslands. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)

FacebookTwitterEmail

SVIÐSLJÓS



Fjármagna áfram hernað Pútíns

Tekin var loks ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan af hálfu Evrópusambandsins um það að draga úr olíukaupum ríkja þess frá Rússlandi, meira en þremur mánuðum eftir að rússneski herinn réðist inn í Úkraínu. Olíukaupunum verður þó ekki hætt heldur er stefnt að því að draga úr þeim um 90% fyrir næstu áramót. Þá eru engin áform um það af hálfu sambandsins að hætta kaupum á rússnesku gasi sem er önnur helzta tekjulind Rússlands.



Kuldinn sem fyrr bandamaður Rússlands

Kuldinn hefur lengi verið bandamaður Rússlands þegar komið hefur að því að bera að lokum sigur úr býtum á öðrum Evrópuríkjum. Veturinn 1812 setti hernað Napóleons úr skorðum og hersveitir Hitlers frusu í hel við borgarhliðin að Moskvu í desember 1941. Vladimír Pútín hefur það nú á valdi sínu að skrúfa fyrir flæði gass til Evrópu.



Hornsteinn NATO á norðurslóðum

Haft er eftir Michael Gilday flotaforingja í fréttatilkynningu bandaríska sjóhersins að Ísland sé „the geostrategic linchpin“ fyrir varnir NATO á norðurslóðum sem yfirfæra mætti sem hornstein bandalagsins á svæðinu með tilliti til varnaraðgerða. Gilday sagði við Morgunblaðið að ljóst væri að landfræðilegt mikilvægi Íslands ætti ekki eftir að ekki breytast.

Færslur

  • Hvers vegna vilja Svíar og Finnar í NATO?
  • Telja sig hafa 48 klukkustundir
  • Fjármagna áfram hernað Pútíns
  • Kuldinn sem fyrr bandamaður Rússlands
  • „Þetta er búið og gert“
  • Hornsteinn NATO á norðurslóðum
  • Vilja frekar fríverzlunarsamning en EES
  • Fullkominn aðstöðumunur
  • Hefur augljósa yfirburðastöðu
  • Tveir ójafnir dómstólar
  • Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi
  • Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum
  • Sjálfskaparvíti og dómgreindarleysi
  • Stefnt að einu ríki frá upphafi
  • Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda
  • Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB
  • Varnarstöðin yrði opnuð á nýjan leik
  • Stjórnsýslan ekki nógu stór
©2022 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb